Mikið var um dýrðir hjá nemendum í menningarlæsi í dag
Mikið var um dýrðir hjá nemendum í menningarlæsi í dag

Nemendur í menningarlæsi blésu til kosninga í dag. Um var að ræða lokaverkefni í áfanganum þar sem nemendur settu sig í spor frambjóðenda til sveitarstjórnakosninga. Verkefnið gengur undir nafninu Flokkur unga fólksins. Undirbúningur hefur staðið yfir í nokkurn tíma en hann hófst með stofnun flokka á Akureyri og samráði innan þeirra um helstu stefnumál. Krakkarnir settu saman stefnuskrá og kynningarefni auk þess að búa til slagorð og tákn flokkanna.

Í dag var komið að uppskeruhátíð og sjálfum kosningunum. Framboðin opnuðu kosningaskrifstofur og fluttu framboðsræður í áheyrn bekkjarfélaga. Að þeim loknum gengu nemendur á milli kosningaskrifstofa annarra bekkja, kynntu sér áherslur ólíkra flokka og þáðu veitingar frá frambjóðendum sem reyndu að vekja á sér athygli og veiða atkvæði kjósenda.

Í lok dags kusu nemendur með rafrænum hætti í Kvosinni. Kennarar kynntu niðurstöður kosninganna. Þá voru úrslit kynnt í samkeppni um besta frumkvöðlaverkefnið sem fór fram fyrr á önninni, einnig í menningarlæsi. Sigurvegarar kosninganna stigu á svið og fluttu nokkur vel valið þakkarorð og frumkvöðlar tóku við viðurkenningu fyrir vel unnin störf.