Nemendur á uppskeruhátíðinni stilltu sér upp fyrir myndatöku í Gamla skóla
Nemendur á uppskeruhátíðinni stilltu sér upp fyrir myndatöku í Gamla skóla

Í gær var haldin uppskeruhátíð valgreinarinnar Komdu í MA. Valgreinin varð að veruleika í haust í samstarfi við grunnskóla á Akureyri og nágrenni. Þá bauðst grunnskólanemendum að koma og kynna sér nám og líf í MA vikulega. Kennarar ólíkra námsgreina og -brauta hafa fengið tækifæri til að kynna sig og sínar áherslur. Einnig hafði skólafélagsstjórnin aðkomu að áfanganum en meðlimir hennar kynntu félagslífið sem og fjölmörg og fjölbreytt undirfélög. Einkar ánægjulegt var að vinna með nemendum sem völdu að kynna sér MA en krakkarnir komu úr ólíkum skólum og fengu líka tækifæri til að kynnast hvert öðru.

Við færum þessum nemendum kærar þakkir fyrir að treysta okkur í vetur, við lærðum heilmikið af þeim og munum nýta það til að þróa valgreinina enn frekar næsta haust.

Gleðilegt sumar krakkar!

 

Anna Eyfjörð Eiríksdóttir.

Hildur Hauksdóttir.