Nemendur í 3T og 3U sýna grunnskólanemendum tilraunir í efnafræði
Nemendur í 3T og 3U sýna grunnskólanemendum tilraunir í efnafræði

Nemendum í efstu bekkjum grunnskóla á Akureyri býðst að taka fjölbreytta valáfanga sem margir hverjir eru kenndir utan grunnskólanna. MA tekur þátt í þessum valgreinum í fyrsta sinn í vetur og býður upp á áfangann Komdu í MA. Alls eru 20 nemendur í áfanganum úr 6 grunnskólum.

Nú á haustönn er sjónunum beint að raungreinum, eðlisfræði, efnafræði, líffræði, jarðfræði og stjörnufræði og fær hver grein u.þ.b. 3 vikur. Reynt er að hafa eins mikið verklegt og mögulegt er, gera tilraunir með krafta, ljós og rafmagn í eðlisfræðinni, fara í stjörnuskoðun í stjörnufræði, skoða steina í jarðfræðinni, líf plantna og dýra og vistkerfið Akureyri í líffræði svo eitthvað sé nefnt. Fyrstu lotunni lauk í vikunni á því að nemendur í 3T og 3U sýndu grunnskólanemendunum ýmsar efnafræðitilraunir undir berum himni ásamt kennara sínum Andra Gylfasyni.

Á vorönninni verður svo sjónum beint að tungumálum, sviðslistum og félagslífi skólans. Það er verulega skemmtilegt að fá grunnskólanemendur í skólann og kynna þeim námið.