Fjöldi nemenda tekur þátt í dansatriði PríMA
Fjöldi nemenda tekur þátt í dansatriði PríMA

Árshátíð MA er stærsti viðburður félagslífsins í skólanum; að baki vel heppnaðri kvöldstund er mikil vinna og undirbúningur nemenda, sem hefst raunar strax í ágúst. Þetta var fyrsta árshátíðin með einungis þremur árgöngum og var því óvenju rúmt í Höllinni. Þátttaka er hinsvegar afar góð og mættu um 95% MA-inga á árshátíðina. Um 50 nemendur komu að uppsetningu hennar og ekki laust við að kennurum þætti ögn fámennara í kennslustundum í síðustu viku en venjulega. Það er enda mikill metnaður lagður í skreytingar og tekur sú uppsetning í raun heila viku fyrir árshátíðina. 

Dagskráin var viðamikil, að venju eru myndbönd vinsæl og voru 3 myndbönd og lög gefin út á hátíðinni (auk myndbands frá kennurum), fleiri atriði voru á sviðinu en síðustu ár, t.d. tónlistaratriði frá TóMA og LMA og sigurvegurum Viðarstauks, Gettu betur-keppni milli kennara og dansatriði PriMA með 120 þátttakendum, að ógleymdum kór MA (SauMA). Ævinlega er einum heiðursgesti boðið á árshátíðina sem heldur stutta ræðu og að þessu sinni var það Logi Már Einarsson þingmaður og MA-stúdent 1984.

Ballið sló rækilega í gegn og bættust þá í hópinn u.þ.b. 200 utanskólanemendur.

Starfsfólk MA þakkar nemendum fyrir þessa fínu árshátíð. Framundan er svo lokaspretturinn á önninni og undirbúningur fyrir námsmatsdagana í desember.