Leikfélag MA frumsýndi í kvöld leikverk gert eftir skáldsögu Andra Snæs Magnasonar, LoveStar, í Hofi i leikstjórn Einars Aðalsteinssonar.

Sýningunni var ákaflega vel tekið og var einróma álit sýningargesta að þetta væri með betri leiksýningum skólafólks. Allir aðstandendur sýningarinnar eru nemendur í skólanum að leikstjóranum undanskildum og reyndar aðstoðarleikstjóranum, sem varð stúdent frá MA sl. vor. Fjórtán leikarar, sex dansarar, níu manna kór og níu manna hljómsveit og fjöldi stráka og stelpna í búningum, hárgreiðslu, förðun, tæknistörfum og alls kyns reddingum. Tónlist var valin, og jafnvel samin, og útsett af nemendum sem stjórnuðu hljómsveitinni, dansar voru samdir og þjálfaðir af nemendum og svo mætti lengi telja.

Höfundur sögunnar um Ástarstjórnu framtíðarinnar, Andri Snær Magnason, var afar ánægður með sýninguna og hafði um hana fögur orð, en hann kom í Hof ásamt konu sinni og börnum. Fögnuður Leikfélagsfólksins var mikill í lokin og nú er hvíld í tæpa viku, því næsta syning er á fimmtudaginn kemur. Það má hins vegar telja afrek að koma þessu viðamikla verki svona vel á svið á tiltölulega stuttum tíma, því sýningar LMA hafa aldrei verið svona snemma á árinu. Þessi stutti æfingatími hefur hins vegar skilað góðum árangri.

Til hamingju með frábæra sýningu.