Hluti nemenda í menningarlæsi fá fræðslu um síldarævintýrið á Siglufirði
Hluti nemenda í menningarlæsi fá fræðslu um síldarævintýrið á Siglufirði

Óhætt er að segja að veðrið hafi leikið við nemendur úr MA á Siglufirði í dag. Engin ófærð, aðeins sól og blíða sem tók á móti nemendum í menningarlæsi þegar þeir mættu á slóðir Andra Ólafssonar lögreglumanns. Ætlunin var þó ekki að fræðast um sjónvarpsþáttagerð heldur frekar að kynnast atvinnustarfsemi og mannlífi á staðnum í fortíð og nútíð. Með í för voru kennararnir Anna Sigríður Davíðsdóttir, Brynjar Karl Óttarsson, Eva Harðardóttir, Sigríður Steinbjörnsdóttir og Sara Vilhjálmsdóttir stuðningsfulltrúi.

Að venju var Síldarminjasafnið heimsótt þar sem gestirnir úr MA fengu fræðslu um atvinnulíf í bænum forðum daga. Heimsókn í Alþýðuhúsið til Aðalheiðar Eysteinsdóttur listakonu og á súkkulaðikaffihúsið Fridu gaf nemendum innsýn í fjölbreytta atvinnuflóru bæjarins nú til dags. Þá komu nemendur við í Aðalbakaríi þar sem margir notuðu tækifærið og sátu úti í blíðviðrinu með hressingu og spjölluðu við bæjarbúa. Nemendur nærðu einnig andann því í kirkjunni var sungið hástöfum við undirleik Sturlaugs Kristjánssonar.

Að lokinni þéttskipaðri dagskrá seinni part dags héldu nemendur og kennarar heim á leið, sælir og glaðir með vel heppnaða námsferð og rjóðir í kinnum.