 
				
									Frá kynningu tungumálakjörsviðs
							 
				Núna standa yfir svokallaðir velgengnisdagar í 1. og 2. bekk en þar er í raun um að ræða samþjappaða lífsleikni af ýmsu tagi. Þá er markvisst unnið með grunnþætti  menntastefnunnar þrjá daga í röð og önnur kennsla lögð niður á meðan. 
Í fyrsta bekk fara bekkir í gegnum 4 smiðjur sem hver um sig snýst um ákveðin markmið og leiðir að góðu og heilbrigðu lífi. 
Smiðjurnar eru:
- Hvar  liggja mörkin? Í þeirri smiðju beina kennarar og nemendur sjónum sínum  að hvar mörkin á milli hins siðlega og ósiðlega liggja og skoða í því  skyni dægurmenningu okkar s.s. eins og auglýsingar, tónlistarmyndbönd og  orðræðuna í samfélaginu.
- Geðrækt. Í þeirri smiðju eru rædd ýmis  atriði sem snerta á einn eða annan hátt líðan okkar og hvað það er sem  byggir upp og hlúir að geðheilsu. Einn liður í geðræktarsmiðjunni hefur  t.d. verið að skrifa þakkarbréf til einhvers sem skipt hefur nemendur  máli og margir hafa því fengið slík bréf á undanförnum árum, fjölskylda,  vinir, kennarar o.fl.
- Áhættuhegðun. Sú smiðja er hugsuð til að vekja  nemendur til vitundar um ýmsar tegundar áhættuhegðunar og persónulegrar  ábyrgðar hvers og eins til að draga úr tíðni hennar og neikvæðum  afleiðingum.
- Heilsueflandi framhaldsskóli. Þar fara nemendur í  hópeflisleik sem m.a. felst í að nemendur fara út um allan bæ, leysa  þrautir og láta gott af sér leiða. Liðin safna stigum og veitt eru  verðlaun fyrir stigahæsta liðið. Íslenskir rófubændur styrkja þessu  smiðju með því að gefa rófur þannig að nemendur fá rófur að loknum leik  til að auka orkuna aftur.
Tvær smiðjanna, Hvar liggja mörkin og Geðræktin eru meira eða minna kynjaskiptar. Fjórir kennarar sjá um hverja smiðju. 
Í  2. bekk eru tvö meginþemu:
- Annars vegar náms- og starfsval. Þá eru  kjörsvið og kjörsviðslínur kynntar, eldri nemendur segja frá námsleiðum  og einnig komu nemendur úr HR og HÍ og kynntu raungreina- og tækninám  fyrir nemendum á raungreinasviði. Háskólinn á Akureyri býður einnig  öllum nemendum í heimsókn og kynnir námið. 
- Hins vegar er svokölluð  borgaravitund í brennidepli, þ.e. að skoða hvernig borgararnir (við  öll!) geta haft áhrif á samfélagið og þær ákvarðanir sem þar eru teknar.  Sjónunum er einna helst beint að starfsemi frjálsra félagasamtaka og í  kjölfarið halda nemendur svokallaðan góðgerðardag  þar sem bekkir ákveða  að styrkja einhver góð málefni með ýmsum uppákomum. Sem dæmi um  verkefni á góðgerðardeginum núna er áheitahlaup milli Dalvíkur og  Akureyrar og vinabönd seld til styrktar Hetjunum, bókasöfnun fyrir  geðdeild FSA, fatamarkað í Rauða krossinum, athygli vakin á Fair trade,  bingó til styrktar Eik, heimsóknir á leikskóla og á Hlíð.
- Einnig er  farið í mannréttindaleikinn "Sköpum tengsl" undir leiðsögn Péturs  Björgvins Þorsteinssonar og í tengslum við hann koma fulltrúar  bæjaryfirvalda, fjölmiðla, fyrirtækja og almennra borgara í heimsókn og  segja frá hlutverki þeirra í samfélaginu