Lilja Ákadóttir
Lilja Ákadóttir

Þetta er hún Lilja Ákadóttir, ungi kennarinn sem ætlar að gera kennsluna að ævistarfi og hannar og saumar föt í frístundum

Lilja hefur næststystan starfsaldur í hópi kennara skólans og er líka með allra yngstu kennurum. Hún hóf störf haustið 2018 og segist ætla að vera í MA þar til hún verður 67 ára. Hún er stoltur Þorpari, alin upp þar, býr þar og ætlar sér að vera þar um ókomna tíð.

Lilja segir að það sé mjög skemmtilegt að vera nýi ungi kennarinn. Ekki síst sé gaman að vinna með gömlu kennurum sínum og sjá aðra hlið á þeim. Lilju finnst mjög vænt um skólann og á góðar minningar frá því hún var hér í námi. ,,Ég man líka eftir mér fimm ára gamalli þegar ég kom með pabba heitnum hingað, en hann var smiður í skólanum. Mér finnst vænt um þær minningar.“

Lilja ákvað strax í MA að verða kennari, og það var kennari hennar Valgerður S. Bjarnadóttir sem varð til þess. ,,Hún sagði okkur frá þessari námsgrein, uppeldis- og menntunarfræði, og hvaða leið hún hafði farið og þá sá ég ljósið, ákvað að fara í þetta nám og verða kennari í MA.“ Lilja er að eigin sögn uppeldisfræðinörd og finnst langskemmtilegast að kenna þroskasálfræði og uppeldisfræði.

Lilja segist hafa mikinn áhuga á unglingum og þeir geri starfið svo fjölbreytt og skemmtilegt. ,,Þetta er svo skemmtilegur aldur, svo mikið í gangi hjá þeim og það er svo gaman að fylgjast með þeim takast á við nýja hluti. Þeir geta líka verið  svo óútreiknanlegir og ég veit því aldrei alveg hvernig dagurinn verður.“ Lilja leggur mikla áherslu á að tengjast nemendum og kynnast þeim og lærir til dæmis öll nöfn í fyrstu vikunni. ,,Það er mikilvægt fyrir árangursríka kennslu að tengjast nemendum og ná til þeirra.“

Aðaláhugamál Lilju er að hanna og sauma föt. ,,Ég fer gjarnan í Rauða krossinn og Hertex, kaupi föt úr gæðaefnum, tek þau í sundur og bý til ný og með nammi í skál og góða tónlist þá er komin uppskrift að góðu laugardagskvöld.“ Lilja er mikil fjölskyldumanneskja. ,,Ég er eiginlega algjör heimaalningur. Við erum mjög mikið saman, líka systkini mín og mamma og tengdafjölskylda. Við hittumst oft, eiginlega á hverjum degi.“

Þú þykir nokkuð skipulögð? ,,Ég er skipulagsfrík, ég elska að skipuleggja, það er eiginlega áhugamál. Kannski hentar kennslan mér þess vegna svona vel því það þarf alltaf að vera að búa til plan. Vikuáætlanir eru draumur en ekki kvöð.“

Að lokum: Hvernig er að eiga við allt þetta hár? ,,Það getur alveg verið fyrirhöfn en mér óx ekki hár fyrr en ég var orðin vandræðalega gömul. Mamma klæddi mig í bleika kjóla svo það sæist allavega að ég væri stelpa. Ég var kölluð Kiwi þegar ég var lítil af því að ég var með svo lítið hár. Síðan hef ég haldið í hárið fyrir utan þegar ég klippti það stutt í flippkasti í 7. bekk.“