Vöfflur með rjóma er fastur liður í Gamla skóla eftir skólakynningar
Vöfflur með rjóma er fastur liður í Gamla skóla eftir skólakynningar

Hin árlega skólakynning fór fram í byrjun október. Nemendur í 10. bekk úr grunnskólum Akureyrar og nágrannabyggðarlaga heimsóttu skólann í fylgd starfsfólks. Krakkarnir fengu leiðsögn um skólabygginguna, m.a. frá nemendum sem sögðu frá fjölbreyttu námsframboði og félagslífi sem skólinn býður upp á.

Líkt og áður kom stór hópur fólks að skólakynningunni með einum eða öðrum hætti. Auk starfsfólks MA stóðu u.þ.b. 60 nemendur vaktina þá tvo daga sem kynningin fór fram. Sú venja hefur skapast að bjóða þeim nemendum sem aðstoða við kynninguna í vöfflukaffi á kaffistofu starfsfólks og þakka þeim þannig fyrir vel unnin störf. Engin breyting varð á því þetta árið. Mæting var með besta móti og góður rómur gerður að vöfflunum. Takk fyrir hjálpina krakkar.