Einingafjöldi: 4
Þrep: 2
Forkröfur: SAGANÝ05 eða SAGA2SÖ05

Áfanginn veitir almenna innsýn í siðfræði með sérstakri áherslu á gagnrýna hugsun sem undirstöðu siðferðilegrar greiningar. Fjallað er um aðferðir gagnrýninnar hugsunar, tengsl við rökfræði og siðfræðilegt mat, auk grundvallarhugtaka, helstu kenninga og strauma í siðfræðilegri hugsun. Nemendur læra að beita gagnrýninni nálgun við greiningu siðferðilegra álitamála og röksemdafærslna, kynnast samskipta- og umhyggjusiðfræði, tengslum siðfræði við samfélagsmiðla og hagnýtri siðfræði, þar á meðal lögmálunum fjórum í vísindum. Fjallað er um siðfræðilegar áskoranir sem tengjast meðal annars gervigreind og menningarlegri afstæðishyggju. Markmiðið er að efla siðfræðifærni nemenda með áherslu á gagnrýna, rökrétta og sjálfstæða hugsun, sem undirbúning fyrir ábyrga þátttöku í samfélaginu.

Þekkingarviðmið

Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:

  • grundvallarhugtökum siðfræðinnar og tengslum þeirra við gagnrýna hugsun
  • uppbyggingu og einkennum röksemdafærslna og algengustu rökvillum
  • helstu kenningum í siðfræði, kostum þeirra og göllum
  • samskipta- og umhyggjusiðfræði og siðferðilegum álitamálum samtímans
  • lögmálunum fjórum í vísindum og tengslum þeirra við gagnrýna hugsun
  • siðferðilegum áskorunum tengdum gervigreind, tækniþróun og samfélagsmiðlum

Leikniviðmið

Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:

  • beita gagnrýninni hugsun við greiningu og mat á krefjandi spurningum
  • greina og meta gæði siðferðilegra röksemdafærslna og bera kennsl á rökvillur
  • meta áreiðanleika upplýsinga og greiða forsendur frá ályktunum
  • beita helstu kenningum siðfræðinnar við greiningu raunverulegra málefna
  • meta siðferðilegar afleiðingar samfélagsmiðla og tækni með gagnrýnum hætti
  • beita lögmálunum fjórum í vísindum við siðferðilegt mat

Hæfniviðmið

Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:

  • taka ígrundaðar, rökstuddar ákvarðanir í siðferðilegum málefnum
  • meta gagnrýnið eigin skoðanir og annarra og rökstyðja afstöðu sína á skýran hátt
  • greina veikleika og styrkleika í siðferðilegum röksemdafærslum
  • sýna virðingu fyrir ólíkum sjónarmiðum en jafnframt að meta þau gagnrýnið
  • taka þátt í og leiða gagnrýna umræðu um siðferðileg málefni samtímans
  • tengja vísindalega og siðferðilega hugsun og greina siðferðilegar áskoranir í persónulegum, faglegum og samfélagslegum aðstæðum