Félagsstarf er rótgróinn hluti af skólalífinu í MA. Nemendur koma úr ýmsum áttum, rúmlega helmingurinn er frá Akureyri og nágrenni, fjölmargir aðkomunemendur búa á Heimavist og allmargir leigja úti í bæ. Þessi fjölskrúðugi hópur býr við bekkjakerfi í skólanum og allt þetta kallar á mjög mikla samveru og ríkulegt félagslíf. Hér er sagt frá broti af þessu starfi.

Skólafélagið Huginn

Huginn, skólafélag Menntaskólans á Akureyri er nemendafélagið, kjölfestan í skólalífinu. Á vegum þess starfa fjölmörg félög og klúbbar, blandaður kór, íþróttafélag, leikfélag, tónlistarfélag, málfundafélag, félög áhugaljósmyndara og myndbandamanna og þannig mætti lengi telja. Skipulag félagsstarfsins er í höndum stjórnar HUGINS og önnur félög eru í nánum tengslum við HUGIN, en flest félögin eru eyrnamerkt skólanum þannig að nöfn þeirra enda á MA. Upplýsingar um skólafélagið, lög þess, stjórn og undirfélög má sjá hér https://www.huginnma.is/

Helstu hátíðir sem skólafélagið stendur fyrir eru Busaballið, vímulaus skemmtun í skólanum í upphafi skólaárs, Árshátíð MA, fjölmennasta vímulaus unglingahátið á Íslandi, haldin sem næst 1. desember, og Söngkeppni MA, sem er forkeppni fyrir Söngkeppni framhalds-skólanna. Einnig stendur skólafélagið fyrir stuðningi við keppnislið í MORFÍS og Gettu betur.

Muninn

er skólablað nemenda Menntaskólans á Akureyri. Muninn kemur út a.m.k. tvisvar á ári, með greinum, myndum og margvíslegu efni sem nemendur semja og hanna að öllu leyti sjálfir.

Hagsmunaráð

vinnur, eins og nafnið bendir til, að hagsmunamálum nemenda, jafnt réttindamálum þeirra gagnvart skólanum og fyrirgreiðslu út á við. Í hagsmunaráði er einn fulltrúi af hverju námsári auk forseta, sem jafnframt á sæti í stjórn Hugins.

Ratatoskur

er nafn á opnum dögum á vorönn, þegar regluleg stundaskrá er brotin upp, en nemendum býðst að taka þátt í alls kyns námskeiðum og fyrirlestrum sem ekki heyra til daglegu starfi í skólanum. Nemendur bjóða upp á fræðslu um sérsvið sín og áhugamál, kennarar kenna og kynna eitt og annað óvenjulegt og fenginn er fjöldi fyrirlesara um fjölbreytilegustu efni.

ÍMA

Íþróttafélag MA stendur á gömlum merg. Það stendur fyrir alls kyns íþróttakeppni innan skóla og milli skóla og hefur aðstöðu í Fjósinu, íþróttahúsi skólans, og í Íþróttahöllinni.

TóMA

Tónlistarfélag MA stendur fyrir ýmiss konar tónlistarstarfi og tónleikahaldi og tónlistarkynningum, meðal annars Viðarstauki, sem er popp-rokk hátíð með rafmögnuðum hljóðfærum og Stiðarvauki, sem er órafmögnuð tónlistarsamkoma.

LMA

Leikfélag MA er elsta félag skólans og hefur að jafnaði leiklistarnámskeið og sýnir eitt leikrit árlega, sjónleik eða söngleik. Meðal annars má nefna söngleikina Kabarett, Hárið og Chicago og nú síðast, Vorið vaknar, Konung ljónanna og Anný. Þá hefur LMA tekið þátt í kvöldvökum og skemmtiatriðum á árshátíð, unnið með myndbandafélaginu og fleirum, svo eitthvað sé nefnt.

MyMA

Myndbandafélag MA hefur gengist fyrir upptökum á atburðum í félags- og skólastarfi, gert kynningarmyndir og staðið fyrir stuttmyndagerð. Hjá MyMA er aðstaða til að klippa og setja saman myndefni.

FálMA

Félag áhugaljósmyndara hefur aðstöðu í Möðruvallakjallara þar sem er stúdíó með ljósum og bakgrunnum, og stendur að auki fyrir námskeiðum í ljósmyndun og myndvinnslu.

Kór MA

Kórinn er blandaður og hefur meðal annars gefið út hljómdisk með íslenskum þjóðlögum í vönduðum útsetningum. Kórinn kemur fram nokkrum sinnum á ári og tengist ýmsu öðru félagslífi. Kórinn kallast öðru nafni Sauma, Sönggfélag Menntaskólans á Akureyri.

Gettu betur

Menntaskólinn á Akureyri hefur lengi tekið þátt í Gettu betur og unnið hljóðnemann þrisvar, 1991 og 1992 og 2006. Liðið hefur einu sinni verið skipað tveimur stúlkum og einum strák, en því miður hefur ekki gengið sem skyldi að viðhalda hlut kvenna í liðinu. Takmarkið er jafnan að vinna en að minnsta kosti komast í sjónvarpshluta keppninnar.

Söngkeppni MA

er orðin einn stærsti atburðurinn í félgaslífinu. Úrslitakeppni söngkeppni framhaldsskólanna hefur oft farið fram á Akureyri, að hluta eða í heild í umsjá nemenda MA og VMA. MA hefur einu sinni átt sigurvegara í Söngkeppni framhaldsskólanna og öðru sinni orðið hlutskarpast í símakosningu um besta atriðið. Söngkeppnin fór árum saman fram í Kvosinni, en á síðustu árum hefur hún verið á stóra sviðinu í Hofi.