Stjórn TóMA taldi að félagið ætti að sinna fleiri tegundum tónlistar en poppi og rokki árið 1989
Stjórn TóMA taldi að félagið ætti að sinna fleiri tegundum tónlistar en poppi og rokki árið 1989

Í ársbyrjun 1989 tók ný stjórn TóMA, Tónlistarfélags MA, til starfa. Stjórnin var kosin á sérstökum auka aðalfundi sem boðað var til eftir að þáverandi stjórn lét af störfum. Hin nýja stjórn var skipuð eftirtöldum nemendum: Ármann Guðmundsson ritari, Árný Guðmundsdóttir meðstjórnandi, Halldór B. Halldórsson, meðstjórnandi, María Pálsdóttir gjaldkeri og Örvarr Atli Örvarsson formaður.

Nýkjörinn formaður skrifaði grein sem birtist í vorútgáfu Munins þetta sama ár. Í greininni, sem ber yfirskriftina TÓMA, segir hann mikla vinnu vera framundan hjá nýrri stjórn þar sem „vegur og virðing TóMA hefur farið mjög hrakandi hin síðari ár“. Greinarhöfundur greinir frá áætlunum hinnar nýju stjórnar til að taka á vandanum.

Við viljum byrja á að hleypa að fleiri tegundum tónlistar en eingöngu poppi og rokki. Þetta þýðir þó alls ekki að TóMA eigi að breytast í einhvern „menningarsnobbklúbb“ þar sem svoleiðis tónlist verður útilokuð. Öðru nær. Hinsvegar viljum við reyna að forðast mikla „taptónleika“ eins og þá sem hafa tíðkast undanfarið.

Í beinu framhaldi af þessu vil ég minnast á Viðarstauk, sem hefur raunar því miður farið nokkuð hrakandi undanfarin ár. Til að sporna við því og reyna að vanda til hátíðarinnar ætlum við að reyna að tilkynna tímanlega hvenær hún verður haldin og jafnframt að aðstoða væntanlega þátttakendur við að fá tíma og pláss til æfinga. Ég vil hér með hvetja alla sem áhuga hafa til að fara að leggja á ráðin um að koma fram á „Woodstock“ og ég hvet þá eindregið til að leggja sig alla fram svo slyðruorðið verði rekið af „Stauknum.“

Ég minntist á það hér á undan að TóMA þyrfti að sinna fleiri tegundum tónlistar. Á því sviði er fyrst að nefna að þegar þetta er skrifað erum við nýbúin að halda djasstónleika með Stórsveit Tónlistarskólans. Þeir heppnuðust mjög vel og fjöldi áheyrenda hafði gaman af. Við hyggjum á að minnsta kosti eina svipaða tónleika síðar í vetur, í tengslum við listadaga, en meira um það síðar.

Klassísk tónlist hefur undanfarið verið því sem næst útilokuð í starfsemi TóMA og skýtur það nokkuð skökku við, einkum þegar tekið er tillit til þess að æ fleiri nemendur M.A. stunda jafnframt nám í Tónlistarskólanum. Því er varla hægt að segja að TóMA standi undir nafni á meðan það sinnir ekki klassík. Af þeim sökum viljum við reyna að taka upp samstarf við tónlistarskólanema. Við gerum okkur vonir um að árangur þess starfs komi í ljós á Listadögum. Þá er ærin stæða til að vekja athygli tónlistarskólafólks og allra annarra TóMAfélaga á hinu flennistóra klassíska plötusafni sem félagið á í TóMArúminu.

Fleira er á döfinni, hefur að minnsta kosti verið rætt. Menn hafa rætt um að halda vísnakvöld, plötu- og myndbandakynningar, tónleika akureyrskra popphljómsveita o.fl. Það er einlæg ósk okkar að alir þeir sem áhuga hafa á þessu, til dæmis að taka þátt í vísnakvöldi, þeir sem eiga plötur og/eða myndbönd með uppáhaldshljómsveitunum sínum og langar til að kynna þær o.s.frv. - eða hafa tillögur um fleiri atriði sem TóMA ætti að gangast fyrir, þeir hafi samband við okkur í stjórninni, því hvað sem öðru líður má segja að hryggjarstykkið í áætlunum okkar sé að nýta betur þá krafta sem er að finna innan skólans, eða að minnsta kosti hérna norðan heiða.

Með von um líflegt og skemmtilegt samstarf.

Fyrir hönd stjórnar TóMA

Atli Örvarsson


Heimild: Muninn 62. árgangur, 3. tbl.