Sóley Anna Jónsdóttir og Friðrik Snær Björnsson
Sóley Anna Jónsdóttir og Friðrik Snær Björnsson

Félag þýskukennara hefur haldið Þýskuþraut í rúmlega 30 ár og í ár var hún haldin  26. febrúar s.l. Um 60 þýskunemendur tóku þátt og varð Sóley Anna Jónsdóttir 2A í 3. sæti. Sóley Anna er fyrirmyndarþýskunemandi og var þegar búin að vinna sér þátttökurétt á ólympíuleika þýskunnar (sjá hér) sem fara fram í Dresden síðsumars og vonum við að af þeim leikum verði en það er allt óljóst á þessari stundu. Harpa Sveinsdóttir þýskukennari í MA fer með sem fararstjóri ef af verður. Verðlaunahafar í fyrstu sætum Þýskuþrautar eiga þess alla jafna kost að fara í tvenns konar verðlaunaferðir til Þýskalands um sumarið en vegna ástandsins núna er búið að blása aðra þeirra af og óvíst um hina. Við höldum sem sagt enn í vonina með ólympíuleikana.

 Stærðfræðikeppni framhaldsskólanema hefur verið haldin í 35 ár og er árlegur viðburður. Að henni standa Íslenska stærðfræðafélagið og Félag raungreinakennara. Markmið hennar er að auka áhuga framhaldsskólanema á stærðfræði og öðrum greinum sem byggja á stærðfræðilegum grunni. Úrslitakeppnin var haldin 7. mars en í þeirri keppni taka þátt efstu nemendur úr forkeppninni sem haldin er í október ár hvert. Friðrik Snær Björnsson 3VX var einn þeirra sem mætti í úrslitakeppnina, hann lenti í 8. sæti og er hann því einn þeirra 17 nemenda sem býðst að taka þátt í Norrænu stærðfræðikeppninni fyrir Íslands hönd. Friðrik Snær hefur tekið þátt í stærðfræðikeppnum öll árin í skólanum og náð afar góðum árangri, hann var t.d. í ólympíuliði Íslands í stærðfræði í fyrra.

Til hamingju Sóley Anna og Friðrik Snær.