Heimir, Lena og Kristín Elva funda rafrænt og vinna heima eins og svo margir þessa dagana
Heimir, Lena og Kristín Elva funda rafrænt og vinna heima eins og svo margir þessa dagana

Námsráðgjafarnir, Heimir og Lena, og Kristín Elva skólasálfræðingur mynda sterkt teymi í MA, sem gengur oft undir nafninu Stoðteymið. Þau geta ekki frekar en aðrir starfsmenn hitt nemendur augliti til auglitis en halda samt uppi öflugri þjónustu áfram.

Á ma.is og facebook-síðu skólans má finna ýmsar ráðleggingar sem þau hafa deilt, svo sem hvaða atriði er gott að hafa í huga þegar námi er sinnt heima, sjá hér, Bjargráð Rauða krossins og hollráð sem námsráðgjafi í ME útbjó og gaf leyfi til að dreifa.

Starf stoðteymisins þessa daga frá lokun hefur m.a. farið í að:

    • fara yfir miðannarmatið og hringja í nemendur og forráðamenn þeirra sem þarf í framhaldi af því
    • halda rafræna fundi með umsjónarkennurum til að taka stöðuna á bekkjunum og eiga þá auðveldara með að átta sig á hvaða nemendum þurfi að sinna helst
    • hringja í nemendur sem hafa verið í föstum viðtölum
    • taka við símtölum og vera með ráðgjöf fyrir nemendur
    • vera með rafrænar kynningar fyrir grunnskóla

Fastir símaviðtalstíma eru milli kl. 10 og 12 og síðan er tölvupósturinn alltaf greið leið til að ná sambandi. Aðspurð segja þau í stoðteyminu:

Heimir: Satt best að segja er þetta hálf einmanalegt. Tölvupóstur og sími er mikið notaður og manni heyrist á öllu að nemendur séu að vinna eftir skipulagi, vinna sjálfstætt, reyna halda rútínu og huga að heilsu sinni en þetta eru m.a. þættir sem við leggjum áherslu á í okkar ráðgjöf.

Lena: Vissulega er það skrítin staða að vera allt í einu bara einn á skrifstofunni og hitta hvorki nemendur né samstarfsfólk (nema örfáa í einu og með tveggja metra bilinu) og vinna svo heima þess á milli. Tæknin gerir þetta þó mögulegt og við tökum einn dag í einu, höldum rútínu og vonum að nemendur geri það líka.

Kristín Elva: Þetta eru auðvitað mjög skrýtnir tímar. Ég segi alveg eins og er að ég sakna nemendanna mjög sem og vinnustaðarins í heild sinni. Á svona tímum kemur svo sannarlega í ljós hvað við erum miklar félagsverur og þörfnumst hvers annars mikið. Við erum auðvitað samfélag í MA og þetta eru því vissulega öðruvísi tímar. Ég sakna þess að heyra hlátur í Gamla skóla, tónlistar í Kvosinni í löngu, stutt spjall við Snorra húsvörð, hlusta á stjörnuspána mína með kollegum áður en farið er inn í daginn, svo og ég tali nú ekki um þegar nemendur kíkja til manns í létt spjall og „tékka á sálanum“ eins og þau orða það sum. Ég nota símann mikið og sendi tölvupósta. Langflestir bera sig vel og gera eins og þau geta að halda daglegri rútínu sem skiptir svo miklu máli. Ég er að leggja áherslu á þessa grunnþætti við nemendurna: Svefn, hreyfingu og næringu. Einnig hvet ég þau til að vera í sambandi við félaga sína og fá styrk hvert af öðru í gegnum þau samskiptaform sem til eru í dag á þessum rafrænu tímum. Ég er afar stolt af nemendum okkar og finnst þau taka þessu langflest sem verkefni sem þarf að leysa og við reynum að gera þetta saman. Áfram við í MA.