Guðrún Hlín með föður sínum Þórarni Björnssyni. Myndin er samsett.
Guðrún Hlín með föður sínum Þórarni Björnssyni. Myndin er samsett.

Eins og lesendum ma.is er ljóst voru kosningar Huginsstjórnar nú á vordögum og ný stjórn hefur tekið við stjórnartaumunum. Nýrrar stjórnar bíða mörg og fjölbreytt verkefni, ekki síst er snúa að félagslífi nemenda.

Vorið 1967 gerði nemandi skólans Hugin og félagslíf að umtalsefni í grein sem birtist í skólablaði MA. Grein Guðrúnar Hlínar Þórarinsdóttur Félagsstarfsemin birtist í Munin í maíbyrjun, nokkrum vikum áður en hún útskrifaðist frá skólanum. Guðrún Hlín er fædd og uppalin á Akureyri, dóttir Margrétar Eiríksdóttur píanókennara og húsfreyju og Þórarins Björnssonar skólameistara Menntaskólans á Akureyri til margra ára. Guðrún hefur alla tíð tengst MA sterkum böndum. Til marks um tryggð hennar við skólann má nefna að hún hefur verið viðstödd öll skólaslit þann 17. júní í rúm 70 ár með örfáum undantekningum þó. Guðrún er nú búsett í Reykjavík. Við slógum á þráðinn til hennar og spurðum hana út í greinina sem hún skrifaði fyrir 56 árum. Við vildum einnig kanna hvort við fengjum leyfi til að birta meðfylgjandi ljósmynd af henni og föður hennar. Ekki stóð á svörum frá Guðrúnu.

Ég samþykki góðfúslega birtingu bæði greinar og myndar. Ég man hins vegar ekkert eftir þessari grein um félagsstarfsemina sem var í Muninn útskriftarárið mitt frá MA og hlakka til að lesa hana á heimasíðu MA. Kærar kveðjur á kennarastofuna og hlakka til að mæta á útskrift í vor hjá nýjum Meistara, sem ég man best eftir sem smá polla í skíðahótelinu í Hlíðarfjalli.

---

FÉLAGSSTARFSEMIN


Það er mikið félagslíf hér í M.A., því verður ekki neitað. Í skólanum eru gefin út þrjú blöð, hvert á sínu sviði, og þar að auki gefur Raunvísindadeild út sitt eigið blað. Í þessi blöð getum við skrifað nánast allt, sem okkur dettur í hug. Allt gott, siðsamlegt og menningarlegt efni mundi fara í Munin, efni, sem er stigi neðar að öðru að gæðum, í Gambra, og slúðursögur, það djarfasta og ófágaðasta, í Grýtu og allt stærðfræðilegt og lútandi að raunvísindum í blað Raunvísindadeildar. Finnið svo efni, sem ekki yrði birt í einhverju þessara blaða, þ. e. a. s. prenthæft. Samt sem áður kvarta ritstjórar undan pennaleti.

Hér eru starfandi margs konar félög, sem gefa okkur nemendum kost á að stunda áhugamál okkar. Þessi félög keppast við að auka áhuga okkar, hvert á sinn hátt. Raunvísindadeild fær og kostar menn langt að til að kynna okkur það, sem hennar starfssviði viðkemur. Bókmenntakynningardeild sömuleiðis. Tónlistardeild fær hljómsveitir og einstaka listamenn, sem að sjálfsögðu þarf að borga fyrir að spila fyrir okkur á kynningum. Íþróttafélagið æfir menn í sérstökum íþróttagreinum og kostar þá síðan út á land til keppni. Huginn kostar menn hvaðanæva að til að halda fyrirlestra um hitt og þetta, sem hvorki heyrir undir raunvísindi eða annað sínum undirdeildum viðkomandi, og að fyrirlestrinum loknum má spyrja hlutaðeigandi varðandi efnið. Þessir fyrirlestrafundir eru að miklu leyti teknir við af málfundunum, en á þá eru nemendur mikið til hættir að koma, hvað þá stíga í pontu.

Kosningar í embætti innan hinna ýmsu félaga og deilda sýna, að ekki virðist einu sinni vera áhugi fyrir því að komast í embættismannatölu. Nú er venjulega sjálfkjörið í hvert embætti, nema e. t .v eitt. Samt er nú svo komið, að næstum hver embættismaður fer suður í land í nemendaskipti á kostnað Hugins. Og svo eru það dansleikirnir, „skólaböllin". Þau eru vægast sagt léleg. Af hverju? Vegna þess, að þar er enginn aðkeyptur aðili til þess að halda okkur uppi. Þar byggist nefnilega fjörið og skemmtunin að mestu eða öllu leyti á okkur sjálfum. Þar er skólahljómsveit, sem stendur á sama, hversu léleg hún er, þar sem hún er aðeins skólahljómsveit, en ekki aðkeypt hljómsveit utan úr bæ. Og skólaböllin eru ennþá haldin á gamla skólasalnum en ekki í einhverju leiguhúsi úti í bæ. Vitið þið það, krakkar, að við erum farin að kaupa félagslífið í skólanum okkar í stað þess að láta það koma frá okkur sjálfum. Það er spor í öfuga átt. Þegar ég kom í þennan skóla fyrir 7 árum síðan, var aldrei aðkeypt eitt eða neitt til félagsmála í skólanum, og var félagsstarfsemin sízt lakari þá. Menn utan skólans, sem komu til að flytja okkur einhvern boðskap, skemmtun eða fróðleik, komu á Sal, og þá var mætt á Sal, því það var ekkert daglegt brauð að fá menn sunnan úr Reykjavík til að flytja erindi um hitt og þetta. En um málfundi, bókmenntakynningar og aðrar kynningar á vegum sérstakra félaga innan skólans sáum við sjálf. Það var í hæsta lagi, að kennarar eða góðviljaðir menn utan úr bæ hlypu undir bagga með okkur, okkur að kostnaðarlausu.

Þá var að vísu ekki eitthvað um að vera á hverju kvöldi, ekki einu sinni í hverri viku. Ef til vill var stundum of sjaldan eitthvað á döfinni. En þá var líka hægt að koma allri félagsstarfseminni fyrir með góðu móti, og þá gáfu menn sér alltaf tíma til að taka þátt í hverju sem var, þó ekki væri nema að mæta. Í nemendaskipti fóru aðeins fjórir, en samt voru yfirleitt tveir eða þrír um hvert embætti, er kosningar fóru í hönd. Á skólaböllum fannst mér alltaf fjör. Þar mættu flestir, að minnsta kosti þeir, sem dönsuðu, því þá fóru nemendur ekki á dansleiki úti í bæ á hverju föstudagskvöldi til þess eins að verða ballleiðir, og skólahljómsveitin var bezta hljómsveit bæjarins, enda setti hún metnað sinn í það.

Einhvers staðar stendur: „Fjarlægðin gerir fjöllin blá og mennina mikla.“ Það á sjálfsagt við um minningar mínar frá félagslífi skólans á mínum fyrstu skólaárum í M.A. Ég vil alls ekki útiloka alla utanaðkomandi fyrirlesara, en of mikið má af öllu gera. Í þessari grein minni er ég alls ekki að lasta formenn hinna ýmsu félaga skólans, þvert á móti, því í raun og veru eru það þeir einir, sem eitthvað leggja af mörkum. Það erum við hin, sem viljum ekkert gera nema nauðbeygð séum. Það er ekki einu sinni svo gott, að við nennum að sitja og hlusta á þessa aðkeyptu félagsstarfsemi.

Guðrún Hlín Þórarinsdóttir


Heimild: Muninn 39. árgangur, 4. tbl.

Í nóvember á síðasta ári birtist skemmtilegt viðtal við Guðrúnu Hlín á fréttamiðlinum visir.is (75 ára í IKEA: Trúði því alltaf að hún væri kraftaverkabarn). Þar fer hún yfir farinn veg og rifjar m.a. upp menntaskólaárin.