Í öllum ferðum nemenda skólans innanlands, jafnt námsferðum, kynnisferðum, stuðningsferðum í keppni, menningarferðum og þeim öðrum þar sem nemendur ferðast í nafni skólans gilda skólareglur óbreyttar.

Um svokallaðar útskriftarferðir gilda sérstakar reglur, sem hér segir:

Reglur um útskriftarferðir MA og ábyrgð nemenda

  • Útskriftarferðir Menntaskólans á Akureyri skulu farnar að hausti áður en nemendur setjast í 4. bekk eða í páskaleyfinu á vorönn í 4. bekk ef það þykir henta frekar.
  • Þar sem ferðin er í nafni skólans og kennarar fara með geta skólayfirvöld og ferðamálaráð meinað nemendum að fara í ferðina hafi þeir gerst sekir um refsivert athæfi, afar óæskilega hegðun eða eru sterklega grunaðir um fíkniefnaneyslu. Þeir síðastnefndu geta átt kost á því að hreinsa sig af grun með lyfjaprófi.
  • Nemendur laga sig að siðum og venjum þess lands sem heimsótt er og þeim ber að sýna gestgjöfum almenna kurteisi.
  • Sýni nemandi stjórnleysi, vítavert gáleysi eða sjálfseyðandi hegðun getur hann búist við því að kennari kippi honum úr umferð um stundarsakir og veiti aðstoð eða áminningu eftir eðli málsins.
  • Hlýði nemandi ekki tilmælum og áminningu getur hann búist við að vera vísað af hótelinu og þarf að koma sér heim á eigin kostnað.
  • Allar skemmdir af völdum nemanda skulu greiddar af viðkomandi nemanda.
  • Nemanda er ekki heimilt að taka á leigu ökutæki.
  • Nemendur skulu hafa meðferðis alþjóðlegt sjúkrakort.
  • Til að koma í veg fyrir að einn eða fáeinir nemendur eyðileggi ferðina fyrir hópnum og verði jafnvel þess valdandi að hópnum verði vísað af hótelum ber kennara í samráði við fararstjóra að grípa til ákvæðisins um að nemandi þurfi að koma sér heim á eigin kostnað.

Áður en nemandi fær formlegt leyfi til að bóka sig í útskriftarferð á vegum Menntaskólans á Akureyri skal hann samþykkja þessar reglur með undirskrift sinni.